Quantcast
Channel: islam – Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 27

Verður Ísland fyrsta land heims til að banna umskurð drengja?

$
0
0

Átta þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu lögðu í lok janúarmánaðar fram frumvarp til laga um breytingu á hegningarlögum, sem fæli í sér bann við umskurði drengja. Hámarksrefsing fyrir brot á lögunum væri, samkvæmt frumvarpinu, sex ára fangelsi. Um þriðjungur allra karlmanna í heiminum eru umskornir. Nái frumvarpið fram að ganga yrði Ísland eina landið í heiminum þar sem umskurður drengja er bannaður.

„Í um 5.000 ár …“

Greinin sem með frumvarpinu er lagt til að bætist við hegningarlög er svohljóðandi:

Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu barns eða konu með því að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Í greinargerð fyrir frumvarpinu kemur skýrt fram að markmiðið með lagagreininni væri að banna umskurð drengja. Greinargerðin hefst á svofelldum orðum:

Öldum saman, eða í um 5.000 ár, hefur sá siður tíðkast víða að umskera barnunga drengi, framan af með almennu samfélagslegu samþykki og skilningi á helgisiðum tiltekinna trúfélaga, gyðinga og múslima aðallega.

Umskurður drengja hefur mjög almenna útbreiðslu í Bandaríkjunum. Samkvæmt könnun sem gerð var árið 2005 voru 56% allra drengja umskornir skömmu eftir fæðingu það ár. Þá tíðkast umskurður drengja almennt í samfélögum múslima, bæði meðal súnníta og sjíta-múslima. Siðarins er þó ekki getið í Kóraninum.

Aðgerðin er þó hvergi jafn útbreidd og meðal gyðinga, en í Fyrstu Mósebók er umskurður allra drengja tiltekinn sem fyrsta ákvæði sáttmálans sem Guð gerir við Abraham. Umskurður er þannig grundvöllur trúarlegrar og menningarlegrar sjálfsmyndar gyðinga.

Morten Frisch, læknir og baráttumaður gegn umskurði drengja.

Morten Frisch, læknir og baráttumaður gegn umskurði drengja.

Morten Frisch og læknisfræðilegu rökin gegn umskurði

Almennt hefur verið álitið að af umskurði drengja stafi ekki alvarleg heilsufarsleg vandamál. Þvert á móti, raunar, jókst tíðni umskurða verulega á 19. öld, eins og fram kemur í greinargerð með nýja frumvarpinu þegar almennt var álitið að af þeim væri læknisfræðilegur ávinningur. Í dag er það umdeilt.

Samkvæmt rannsókn sem gerð var í Danmörku, á yfir 2.000 pörum karls og konu, og birtist árið 2011 eru umskornir karlmenn aftur á móti líklegri til að upplifa hindranir í vegi kynferðislegrar fullnægingar. Hliðstætt átti, samkvæmt rannsókninni, við um kvenkyns maka umskorinna karlmanna, sem voru líklegri til að segjast kynferðislega ófullnægðar en makar óumskorinna karla.

Danskur læknir að nafni Morten Frisch stýrði rannsókninni, og hefur í kjölfarið orðið leiðandi í baráttunni fyrir banni við umskurði drengja í Danmörku. Hann segir að auk skertrar kynferðislegrar fullnægju stafi hætta af því að blætt geti við aðgerðina, deyfing sem oft er beitt geti verið skaðleg, sýking geti komið í sár og að sársaukinn sem stafar af aðgerðinni geti falið í sér sálrænt áfall. Þá segir hann 5 til 20 prósent umskorinna drengja geta lent í vandræðum með þrengsl í þvagrás.

Gagnrýnendur rannsóknarinnar hafa bent á að af alls um 4.500 þátttakendum hafi aðeins 5 tilheyrt trúarsamfélagi gyðinga og 11 auðkennt sig sem múslima. Rannsóknin gefi þannig fyrst og fremst vísbendingar um áhrif umskurðar á þá sem undirgangast hann vegna fyrirliggjandi kvilla.

Þingmennirnir að baki frumvarpinu sem nú hefur verið lagt fram á Alþingi hafa nefnt fleiri rök til sögunnar. Þannig segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, að forhúð verji kynfæri fyrir sýkingum og haldi rakajafnvægi á þeim. Í viðtali við Vísi bætti hún því við að börnin fari „í sjokk“ og gráti og sér finnist „þetta bara ekki boðlegt“.

Umskurði nær útrýmt í Sovétríkjunum – en ekki bannaður

Umskurður hefur hvergi verið bannaður á Vesturlöndum í seinni tíð. Tilraunir til slíks þekktust til forna – heimildir eru um að rómverski keisarinn Hadríanus hafi bannað umskurð með tilskipun, snemma á 2. öld. Um miðja öldina er eftirmaður hans, Antonínus Píus, sagður hafa bannað gyðingum að umskera aðra en eigin syni.

Umskurði var aftur á móti að mestu útrýmt í Sovétríkjunum. Þar var umskurður ekki blátt áfram bannaður, en að sögn Davids E. Fishman, prófessors í sögu gyðingdóms, beitti ríkisvaldið þrýstingi af ólíkum toga til að gera erfitt um vik að framkvæma aðgerðina. Sovésk lög um aðgreiningu trúfélaga og skóla spiluðu að sögn þar inn í, ásamt lagaákvæðum um ábyrgð þeirra sem framkvæmdu aðgerðina á þeim kvillum sem af aðgerðinni gæti leitt.

Því var það, eftir að Sovétríkin féllu, að verulegur fjöldi karlmanna af gyðinglegum uppruna, sem alist höfðu upp innan Sovétríkjanna, leituðu til rabbía til að undirgangast aðgerðina, á fullorðinsaldri.

Nýlegar deilur um umskurð á Norðurlöndunum

Árið 2001 samþykkti sænska þingið lög um sem gerðu umskurði drengja háða starfsleyfi frá heilbrigðisráði, auk þess sem krafist yrði nærveru læknis eða hjúkrunarfræðings við aðgerðina. Ásetningurinn að baki lögunum var sagður sá að auka öryggi við framkvæmd aðgerðarinnar. Heimsþing gyðinga brást við lögunum með ályktun þar sem sagði að lögin fælu í sér „fyrstu lagalegu hindrunina í vegi trúariðkunar gyðinga í Evrópu frá því á tíma nasista“. Lögin eru þó enn í gildi.

Í gyðingdómi nefnist athöfnin kringum umskurð brit milah, og sá sem hlotið hefur þjálfun til að framkvæma hana nefnist mohel. Samkvæmt skýrslu bandaríska Dómsmálaráðuneytisins frá árinu 2006 hafa flestir mohelar í Svíþjóð hlotið starfsleyfi. Þá er meirihluti aðgerðanna sagður fara fram án nærveru heilbrigðisstarfsfólks eða opinberrar vottunar.

Árið 2013 sendu umboðsmenn barna á Norðurlöndunum frá sér sameiginlega yfirlýsingu um þann ásetning að vinna með stjórnvöldum landanna að því að banna umskurð drengja undir lögaldri. „Drengir geta gert upp hug sinn um aðgerðina sjálfir, þegar þeir eru nógu gamlir til að veita upplýst samþykki,“ sagði þar. Umboðsmennirnir óskuðu eftir að eiga samtal af virðingu við alla þá aðila sem málið varðar og sögðust loks biðja „norræn stjórnvöld um að taka nauðsynleg skref til þess að tryggja að drengir öðlist sjálfir réttinn á að ákveða fyrir sjálfa sig hvort þeir vilja vera umskornir eða ekki.“ Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna á Íslandi, var á meðal þeirra sex sem skrifuðu undir yfirlýsinguna.

Á Norðurlöndunum hefur frumvarp að lögum til að banna umskurð þó aðeins verið lagt fram í Noregi, þar til nú að Ísland bætist í hópinn. Norska frumvarpið var lagt fram árið 2012, af Senterpartiet, bændaflokki í ætt við Framsóknarflokkinn á Íslandi, þó heldur þjóðernissinnaðri.

Danski rabbíinn Jair Melchior.

Danski rabbíinn Jair Melchior.

Stuðningur við bann fer vaxandi í Danmörku

Í desember 2016 ályktuðu dönsku læknasamtökin að umskurður án tilgreindrar læknisfræðilegrar ástæðu væri siðfræðilega óásættanlegur, sé aðgerðin framkvæmd án upplýsts samþykkis persónunnar sem á í hlut. Upplýst samþykki geti enginn veitt, lagalega, fyrr en sjálfræðisaldri er náð, og því skuli aldrei framkvæma umskurð á drengjum undir 18 ára aldri.

Í umræðum í Danmörku var vísað til rannsókna Mortens Frisch, sem minnst var á hér að framan, sem sýna að heilsufarsleg vandamál sem rakin verða til forhúðar, og sneiða hefði mátt hjá með umskurði, hrjái aðeins einn af hverjum 200 drengjum. Í nær öllum tilfellum sé nægilegt að bregðast við vandamálunum þegar þau komi upp, og því sé ekki til staðar réttlæting á óafturkræfri, fyrirbyggjandi aðgerð.

Í könnun sem gerð var árið 2016 sögðust 90% Dana vilja banna umskurð á drengjum undir 18 ára aldri. Á aðeins tveimur árum hafði fylgi hugmyndarinnar þá vaxið úr tæpum 75%, sé tekið mið af könnun sem gerð var árið 2014.

Umskurður hefur ekki verið bannaður í Danmörku, en þar voru í lok ársins 2016 sett lög, hliðstæð þeim sænsku, sem krefja þá sem framkvæma umskurð um að skrá hverja aðgerð hjá hinu opinbera. Danski rabbíinn Jair Melchior sagði þá við dagblaðið Politiken að þó svo að andstæðingar umskurðar væru ekki þarmeð andsnúnir gyðingum, þá myndi það að sannfæra stjórnmálamenn um að banna siðvenjuna vera bæði ólýðræðislegt og andgyðinglegt. Gyðingar myndu upp til hópa hvorki vilja brjóta landslög né sáttmála Gamla testamentisins, og því neyðast til að flytjast á brott. „Það yrðu lög sem beinast gegn gyðingum,“ sagði hann.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 27