Quantcast
Channel: islam – Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 27

Hvernig hefði Mannréttindadómstóllinn metið Múhammeðsmyndir Charlie Hebdo?

$
0
0

Þann 15. október 2018 komst Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) að þeirri niðurstöðu að það fæli ekki í sér brot gegn tjáningarfrelsisákvæði Mannréttindasáttmálans (MSE) að refsa konu í Austurríki fyrir gefa til kynna að Múhammeð spámaður hefði verið haldinn barnagirnd. Konan hafði látið slík orð falla í fyrirlestrum á vegum stjórnmálaflokks sem á rætur í Nazisma og hatast við innflytjendur. Sá veruleiki hefur þó ekki þýðingu í málinu því hún var ekki sakfelld fyrir hatursorðræðu heldur fyrir guðlast. Talið var að aðdróttanir hennar ættu sér ekki sannleiksstoð enda þótt Múhammeð hefði, samkvæmt trúarritum Islams, kvænst 6 ára telpu og fullkomnað hjónabandið þegar hún var 9 ára – hann gat vel hafa kvænst barni án þess að vera haldinn barnagirnd samkvæmt skilgreiningu alþjóðastofnana. Ég hef ýmislegt við þennan dóm að athuga en sú gagnrýni bíður betri tíma. Það sem mig langar að gera hér og nú er að skoða Múhammeðsmyndir Charlie Hebdo í ljósi þessarar niðuðstöðu og reyna að segja til um það hvernig MDE hefði metið hefðu þær komið til kasta dómstólsins.

Tjáningarfrelsi gagnvart trúarbrögðum

Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í verklag MDE en ef maður ætlar að geta sér til um hvað dómstóllinn hefði gert í máli Charlie Hebdo skiptir verulegu máli hverskonar tjáning nýtur verndar Mannréttindasáttmálans. Almennt þarf mikið til að réttmætt teljist að skerða tjáningarfrelsi gagnvart pólitískum málum en það er þó réttlætanlegt þegar gengið er of nærri rétti eða mannorði annarra. Á sama grundvellli hefur MDE fallist á rétt ríkja til að takmarka frelsi til guðlasts því dómstóllinn túlkar trúfrelsisákvæði MSE þannig að trúfrelsi feli í sér rétt til að þurfa ekki að þola móðganir í garð trúarinnar. (MSE kveður reyndar ekki á um neinn slíkan rétt en þetta er semsagt túlkun MDE.) Augljóslega skapast vandamál þegar ádeila á trúarbrögð er bæði móðgandi og pólitísk. Þann vinkil eiga barnagirndarmálið og Charlie Hebdo sameiginlegan.

Þegar rétturinn til að setja fram pólitíska gagnrýni á trúarbrögð og rétturinn til að verða ekki fyrir trúarlegri móðgun rekast á þá metur MDE hvort gagnrýnin teljist óþarflega særandi og til þess fallin að vekja réttláta reiði. Það má gagnrýna trúarbrögð en gagnrýnandinn þarf samt að sýna einhverja lágmarks virðingu. Og hér vandast málið. Það er bara hreint ekki augljóst hvað telst óþarflega særandi eða hvenær reiði telst réttlát. Reyndar sé ég ekki betur en að þetta viðmið gæti slegið alla satríu, íróníu og svartan húmor út af borðinu. Gerum samt ráð fyrir því í bili að satíra, sem tjáningarmáti um samfélagsmál og pólitík, finni náð fyrir augum MDE.

Múhammeðsmyndirnar

Síðasta Múhammeðsforsíða Charlie Hebdo fyrir fjöldamorðin árið 2015 kom út í október 2014. Íslamska ríkið hafði verið stórtækt í grimmdarverkum sínum árið 2014 og m.a. birt myndskeið þar sem vígamenn hreyfingarinnar hálshjuggu ísraelsk-amerískan blaðamann sem hafði verið að störfum í Sýrlandi. Forsíðan sýnir spámanninn í klóm eins af liðsmönnum Íslamska ríkisins, sem kallar hann trúvilling og býr sig undir að gera hann höfðinu styttri.

Forsíða Charlie Hebdo 1. október 2014, viðbragð við aftökumyndböndum ISIS.

Þessi mynd býður augljóslega upp á þá túlkun að hún feli í sér pólitíska ádeilu á Íslamska ríkið: Þeir eru svo ofbeldishneigðir og svo öfgafullir í hugmyndum sínum um villutrú að þeir myndu drepa spámanninn sjálfan ef þeir næðu til hans. Þar sem Íslamska ríkið er pólitísk hreyfing og skilaboðunum er ekki beint að Múslímum almennt, hefði þessi mynd sennilega ekki verið talin óþarflega særandi.

Mynd sem birtist inni í blaðinu í September 2012 er annars eðlis. Hún sýnir mann sem liggur á bæn. Hann er með vefjarhött, stjarna hylur afturendann a honum en kynfærin blasa við. Myndatextinn segir „Múhammeð: Ný stjarna“. Myndin vísar til kvikmyndastiklu sem hafði birst á YouTube fyrr á árinu undir heitinu „Innocence of Muslims“. Stiklan sýnir kvikmyndasenur þar sem dregin er upp mynd af spámanninum sem siðlausum þrjóti og sögur af honum settar í klámfengið samhengi. Stiklan vakti mikla reiði meðal Múslíma og víða um veröld urðu uppþot sem leiddu á endanum til þess að minnst 50 manns létust og hundruð særðust. Eins og venjulega bitnaði reiði Íslamista verst á almennum borgurum í Mið Austurlöndum sem hvergi höfðu komið nálægt gerð stiklunnar.

Ef þú smellir á reitinn hér fyrir ofan birtist annað hvort teikning úr hefti Charlie Hebdo frá árinu 2012, óbreytt, eða þýðing og staðfærsla myndarinnar.

Ef þú smellir á reitinn hér fyrir ofan birtist annað hvort teikning úr hefti Charlie Hebdo frá árinu 2012, óbreytt, eða þýðing og staðfærsla myndarinnar.

Skilaboðin sem þessi mynd ber með sér eru líka skýr: Nú já, svo þú móðgast svona rosalega þegar einhver hæðist að spámanninum. Þú ættir nú bara að sætta þig við það því móðgunum af þessu tagi mun ekki linna. Þessari ögrun er ekki bara beint að ofbeldissinnuðum öfgamönnum, heldur hverjum þeim Múslíma sem krrafðist þess að myndin yrði fjarlægð af YouTube. Miðað við dómaframkvæmd MDE hefði hann sennilega talið þessa mynd óþarflega særandi.

Það er allt eins líklegt að einhverjum finnist alls ekki augljóst að þessi mynd sé nógu móðgandi til þess að verðskulda ekki vernd MSE en það getur verið mun flóknara að spá fyrir um viðbrögð dómstólsins. Umdeildasta Charlie Hebdo mynd allra tíma er forsíðumynd frá 2011. Sú mynd varð kveikjan að árásunum í nóvember 2011 þegar hakkarar brutust inn á vefsvæði tímaritsins og heimagerði sprengju var kastað á höfuðstöðvar þess. Í það sinn urðu ekki slys á fólki, bara töluverðar skemmdir. Á forsíðu blaðsins, sem fór í dreifingu kvöldið áður en árásin var gerð, sést tilbrigði við hinn venjulega forsíðuhaus. Í stað Charlie Hebdo stendur „Charia Hebdo“ og Múhammeð spámaður er kynntur sem gesta-ritstjóri. Forsíðumyndin sýnir Múhammeð skælbrosandi, segja: „100 svipuhögg ef þú deyrð ekki úr hlátri“.

Forsíðumynd Charlie Hebdo frá árinu 2011. „Miðað við barnagirndardóminn frá október 2018 hefði þessi mynd talist óþarflega niðrandi og byggð á ósönnuðum aðdróttunum“ segir höfundur.

Myndin gefur klárlega í skyn að Múhammeð hafi verið haldinn kvalalosta og það er augljóslega móðgandi fyrir Múslíma. Samt sem áður vísar forsíðan til grimmilegs veruleika; lagabókstafs úr Kóraninum sjálfum, sem mælir fyrir um 100 svipuhögg sem refsingu fyrir hórdómsbrot. Refsingar sem lög margra ríkja kveða á um og er fylgt eftir af fullri hörku.

Myndin felur í sér pólitíska gagnrýni á „Sharia“ (þ.e. lög Islams) og skírskotar til staðreynda. En hún er líka niðrandi og ef menn endilega vilja taka hlutina úr samhengi er mögulegt að bera því við að það séu ósannindi að Múhammeð hefði viljað refsa einhverjum fyrir skort á skopskyni. Hvað hefði MDE gert? Miðað við barnagirndardóminn frá október 2018 hefði þessi mynd talist óþarflega niðrandi og byggð á ósönnuðum aðdróttunum.

Ætlar enginn að bregðast við?

Þannig er nú komið fyrir tjáningarfrelsinu í Evrópu, þegar guðlast er annars vegar. Flestir fjölmiðar brugðust við Múhammeðsmyndum Jótlandspóstsins 2005 með því að neita að birta þær. Mikil er ábyrgð þeirra. Enginn ríkisfjölmiðill í Evrópu birti myndinar. (Uppfært: Ég sagði upphaflega að enginn miðill hefði birt Jótlandspóstsmyndirnar nema Charlie Hebdo en fékk ábendingu um að 11 miðlar í Evrópu þ.á.m. DV hefði birt þær.) Hvernig ætla fjölmiðlar að bregðast við þeirri niðurstöðu að gagnrýni á trúarbrögð, byggð á trúarritunum sjálfum, njóti ekki verndar Mannréttindasáttmálans? Ég hef engin viðbrögð séð hjá heimspressunni enn, önnur en þau að birta eða endursegja fréttatilkynningu um niðurstöðu dómsins frá október sl.

Hvernig ætlum við öll að bregðast við þessari niðurstöðu? Styðja einhverja Nazistakerlingu? Eins mikið ógeð og ég hef á þjóðernishyggju þá segi ég já, í þessu tilviki. Það felur ekki í sér stuðning við þjóðernishyggju að lýsa yfir hneykslun á því hvernig MDE tók á málinu. Þetta snýst ekki um það hvað Nazistar megi segja eða við hvern, þeir njóta sama tjáningarfrelsis og aðrir. Þetta snýst um það hvað hvert okkar getur leyft sér að ganga langt í ádeilu á trúarbrögð. Ef má ekki tala um Múhammeð sem barnaníðing, má þá vísa til guðsins sem mælti fyrir um Nóaflóðið sem fjöldamorðinga?

Í hamingjunnar bænum stingið ekki upp á frekari fjandskap í garð Múslíma. Aukið hatur í garð minnihlutahópa er það síðasta sem okkur vantar og það er engin lausn að reyna að hindra innflutning Múslíma til Evrópu, það gæti hinsvegar gert illt verra. En eigum við virkilega að sætta okkur við það að Evrópuríki geti óátalið refsað fólki fyrir að móðga fylgjendur trúarbragða, jafnvel þegar móðgunin felst aðeins í því að benda á ritningastaf og trúartúlkun sem meirihluti fylgjenda tekur bókstaflega?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 27