Quantcast
Channel: islam – Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 27

Hræddir gegn einföldum: Einfaldur hugsar upphátt

$
0
0

Við lestur fyrstu frétta af hryðjuverkaárásunum í París gat maður sagt sjálfum sér að atburðirnir myndu spila upp í hendurnar á valdafíklum og tækifærissinnum. Ég veit að það er eigingjarnt – og raunar fullkomið dæmi um hve erfitt það getur verið að setja hagsmuni annarra fyrst og sína eigin þar á eftir – en mín fyrsta hugsun var óttinn um að tækifærismenn landsins myndu nú sameinast um að keyra upp ótta, sundrungu og tilbúið menningastríð ‘raunsæja fólksins’, sem alltaf er tilbúið að fórna frelsi annarra fyrir eiginhagsmuni og leitina að fölsku öryggi.

Atburðarásin var fyrirsjáanleg: Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, myndi enn einu sinni minna á þörfina á því að vopna lögregluna og hætta öllu pjatti í frjálsræðisátt. Haukarnir á þingi með forsætisráðherra fremstan í flokki myndu „opna umræðuna“ um aukinn vopnabúnað lögreglu og hert eftirlit með borgurum.

Í nafni raunsæis – en þó aðeins eftir að hafa sviðsett íhugun með stuttri þögn áður en hugsuninni yrði kastað fram – myndi forsætisráðherra benda okkur á að heimurinn sé fullur af vondu fólki sem vilji okkur skaða. Það sé auðvitað sárt og erfitt en þetta verði allir að horfast í augu við. Leiðarstefið í orðunum yrði svo – kannski ekki sagt upphátt en jú kannski, Sigmundur er nefnilega merkilega gagnsær í orðavali þegar kemur að þjóðernispopulisma og sundrungarstjórnmálum – að héðan af yrði að flokka fólk í híerarkíu trausts; Íslendinga efst – sérstaklega þjóðholla og alvöru – og raunar Skandinava þar með, útlendinga næst en þó þannig að hvítir kristnir standi herðum ofar en annað útlenskt.

Á skala traustsins fækkar svo punktum því lengra sem er farið og því skrítnari tungu og siði fólk aðhyllist. Múslimum er erfitt að treysta – til öryggis skal þó taka fram að ekki séu allir múslimar vondir – sumum vegna þess að þau eiga erfitt með að skilja okkar gildi, öðrum vegna þess að þau hata okkur og frelsið sem Vesturheimur fann víst upp í tómi án áhrifa hvort frá öðru eða heiminum öllum. Þannig bjóst ég við að Sigmundur myndi enn einu sinni tala fyrir heimsmynd án flækjustigs þar sem flokka má fólk eftir uppruna, eigin tilfinningum og vanþekkingu – í nafni raunsæis, auðvitað – en ekki á einstaklingsgrunni. Þannig vinna jú tækifærissinnar. Tala í frösum, fjarlægja flækjustigið, tromma upp tortryggni en passa alltaf að skapa sér fjarvistarsönnun. Flækjustigið hverfur nefnilega ekki heldur er fjarlægt tímabundið og geymt þar til það nýtist sem vörn gegn gagnrýni á áróðurinn. Þá verður þetta allt ofsalega núansað og flókið, eitt var sagt, annað var meint, fleira gefið og margt þarf að túlka og hafa í huga. Nú þarf að huga að stóru myndinni og ekki má tapa sér í pólitískum réttrúnaði. Við verðum að geta talað saman!

Áður en ég hafði fyrir því að athuga með öryggi fámenns hóps hóp kollega og vina frá París sem ég hef verið svo heppinn að kynnast – og eru öll heil á húfi – hugsaði ég til Ólafs Ragnars Grímssonar forseta og velti fyrir mér hvað hann myndi segja. Hvaða pólitíska ávinning forsetinn sæi í málinu og hvernig honum tækist að fæða tortryggni meðal almennings á Íslandi með tilvísun í hryðjuverkin.

Á Íslandi er hópur fólks sem telur sig skilja forsetann og vera þess verðugt að túlka og lesa í orð og meiningar forsetans. Ég er ekki einn þessara gáfumanna. Þótt Ólafur hafi verið forseti stóran hluta ævi minnar og stjórnmálamaður frá því löngu áður en ég fæddist er ég engu nær um meiningar þessa manns. Við Ólafur búum ekki í sama samfélagi og höfum raunar aldrei gert. Ég, eins og aðrir sem fylgjast með stjórnmálum, ber einhvers skonar skilyrta en takmarkaða aðdáun fyrir stjórnmála- og fræðimanninum Ólafi Ragnari. Það pirrar mig þegar fólk talar eins og maðurinn sé heimskur eða vitlaus – hann er það augljóslega ekki.

Í gegnum líf mitt og feril hefur Ólafi oft tekist að hafa áhrif, vera fyrir, skemmta mér og hræða mig. Það er eitthvað aulalegt við þennan risastóra fisk í oggupínkulítilli tjörn. Risa sem virðist aldrei ætla að taka bara stökkið og reyna fyrir sér í stóru tjörninni við hliðina. Fiskur sem stekkur stundum á milli en sækir svo alltaf í öryggið heima. Þar getur risinn jú nokkuð áreynslulaust drottnað yfir stjórnmálalífi pollsins. Ég elska eða fyrirlít (satt að segja veit ég ekki hvort og ætli það sé ekki mismunandi eftir dögum) Prinsinn eftir Machiavelli vegna forsetans. Stóran hluta ævi minnar hafa Bessastaðir verið einhversskonar musteri Prinsins rekið af fámennum sértrúasöfnuði sem dýrkar klæki, atburðahönnun og leikjafræði. Það er samt ekki annað hægt en að bera einhversskonar lotningu fyrir manni sem nánast stýrir sálarlífi stórs hóps án þess að hafa neitt fyrir því. Já, lotning er rétta orðið því ekki er þetta eiginleg aðdáun, það er ekki hægt að horfa framhjá því hvað þetta er um leið úrkynjað.

Nei, ég er ekki einn af þeim sem skilur meiningar þessa manns. Gegnsærra er það hvað rekur Ólaf Ragnar áfram; hagsmunir, hans eigin og vina hans. Ætli sú hugsun sé mjög skýr í kollinum á honum? Það er ég ekki viss um. Nákvæmlega þetta gegnsæi er samt ástæða þess að engan ætti að undra að hann skuli í kjölfar hryðjuverkanna panta viðtal. Voðaverkin eru einfaldlega of gott tækifæri til pólitískrar tækifærismennsku til að missa af.

Vandi Ólafs Ragnars er nefnilega að hann hefur í raun ofsalega lítið að bjóða almenningi. Vald forsetans er að mestu óformlegt en þó er formlega valdið mun meira en margir virðast halda. Forsetinn hefur ósköp litlum gæðum að skipta. Embættið hefur ekki stóra sjóði að gefa, mótar stefnu ekki með formlegum hætti og oft er lítil stemming fyrir því að hinu formlega valdi forsetans sé beitt. Vandi Ólafs Ragnars er þó að mestu falinn í því að hann þarf á atkvæðum almennings að halda en vinnur ekki fyrir almenning. Stjórnmál Ólafs snúast um hann og vini hans. Hann er forseti útrásarvíkinga, bankamanna, braskara, yfirstéttar og hagsmunabrasks. Forseti ótta, sundrungar og stanslausra menningaátaka.

Mörgum finnst það ofsalega merkilegt að forsetanum hafi tekist að skipta alveg um bakland. Þvílík pólitísk snilld! Ég er ekki svo sannfærður. Ólafur keppir í kosningum þar sem sigurvegarinn tekur allt. Hann þarf því engan fjöldastuðning heldur bara að splundra atkvæðum sem honum falla ekki til. Menningarpólitík er lykillinn. Þú ærir óstöðugan og dregur til þín um þriðjung atkvæða. Næst málarðu andstæðinga þína sem flokkshesta, Evrópusambandssinna, lattelepjara og óreynda. Menningarstríð er honum lífsnauðsyn en þetta á víst að heita ofsalegir klækir og sniðugheit.

Satt best að segja þá vonaði ég að hryðjuverkin væru ekki af hendi múslima – raunar vonaði ég að mennirnir væru eins evrópskir og hugsast gæti – því viðbrögð okkar við hryðjuverkum slíkra manna eru iðulega annars eðlis. Auðvitað er eigingjarnt að hugsa svona og væntanlega er það þetta sem Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, átti við þegar hann sagði dauðan íkorna í garðinum heima hjá okkur líklegan til að vekja meiri áhuga hjá okkur en sultur erlendis. Á meðan fréttir voru enn að skýrast gat ég ekki hætt að hugsa um hvernig árásirnar yrðu til þess að Ísland yrði örlítið verra.

Allt spilar nefnilega upp í hendurnar á tækifærissinnunum. Auðvitað sýna hryðjuverkin að Schengen-samstarfið er ónýtt. Að sjálfsögðu þarf lögreglan að vopnast enn frekar. Það segir sig sjálft að Islam er ekki fært um að aðlaga sig okkar íslensku gildum. Nú þýðir ekki þessi einfeldni. Hættan er utan frá!

Eitt samt… er hættan utanfrá? Það var lögreglan sem skráði niður stjórnmálaskoðanir fólks í Búsáhaldabyltingunni. Sjálfstæðisflokkurinn sem njósnaði um almenning, Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson sem gáfu erlendum yfirvöldum upplýsingar um íslenska borgara. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson fóru í stríð við Írak. Össur við Sýrland. Valentínus ætlaði að sprengja stjórnarráðið, Vítisenglar hótuðu Ögmundi Jónassyni sem innanríkisráðherra, Bankastrákarnir komu okkur á lista með hryðjuverkasamtökum, Hanna Birna Kristjánsdóttir aftengdi réttarríkið og lögreglan drap mann og klíndi morði á aðra menn. Er hættan bara utanfrá? Hvað veldur því að sami hópur og tekur þátt í þessu bulli telur sig til þess hæfan að segja okkur hinum að draga fyrir gluggann og hætta öllu barnalegu trausti í nafni okkar gilda og frelsis.

Já, allt spilar upp í hendurnar á tækifærissinunum.

Ég dáist að langlundargeði múslima á Íslandi. Árum saman hefur hópurinn mátt búa við uppdiktaðan ótta sem byggir á engu. Ísland er ekki á ystu nöf þess að verða islömsk nýlenda. Langt því frá. Þessi hópur var því sem næst ósýnilegur þar til fólk á atkvæðaveiðum fór viðstöðulaust að berja á þeim. Í síðustu borgarstjórnarkosningum tók elsti flokkur landsins sig til og stillti tilvistarrétti múslima og rétti þeirra til sömu lagalegu meðferðar og önnur trúfélög upp á móti þörfinni á húsnæði á viðráðanlegu verði. Aftur og aftur gera þingmenn sér leik að því að jaðarsetja múslima sem helstu ógnina við íslenskt samfélag. Sömu flóttamenn og eru að flýja grimmdarverk ISIS og Sádi-Arabíu eru gerðir meðsekir kvölurum sínum. Vinsælasta útvarpsstöð landsins talar af slíkri fyrirlitningu um múslima að mér verður um. Hvernig ætli sé að búa í samfélagi sem er svona andsnúið manni? Hvað ætli það taki langan tíma fyrir eitthvað að bresta?

Það tók Framsóknarmenn ekki langan tíma að kvarta yfir fordómum í sinn garð. Nokkrir dagar og öll gagnrýni var afskrifuð sem fjandsemi og fordómar. Samt skilja þau ekki að fólkið sem flokkurinn leggst ítrekað á gæti misst þolinmæðina.

Breskir múslimar hafa áratugum saman mátt búa við þetta sama. Bretar eru ótrúlega hernaðarsinnuð þjóð og hafa sögulega ráðist inn í níu af hverjum tíu löndum heims. Tökum Ísland sem dæmi; innrás og herseta – sem jú margir voru guðslifandi fegnir yfir – vopnuð átök í þorskastríðinu (skot og ásiglingar) og svo hryðjuverkalöggjöf. Alltaf eru það Bretar.

En það sem ég skil ekki er að sama fólk og á enn erfitt með að fyrirgefa Bretum framkomuna vegna Icesave er oft fólkið sem telur það sérstaka einfeldni og meðvirkni með múslimum heimsins ef talað er á þeim nótum að lengri saga og flóknara ofbeldi sé að baki. Að áratuga – jafnvel árhundruða – stríðsrekstur, rentusókn, brask, pólitísk áhrif og hernaður veiki tiltrú þessa fólks á þeim ‘vestrænu gildum’ sem við lofsömum. Að kannski, já bara kannski, upplifi íbúar þessa landa okkur sem kvalara sína.

Það er eins og það hvarfli aldrei að þeim sem öskra mest og kalla eftir miskunnarlausum árásum og sprengingum aftur á steinöld að slíkt veki samskonar ótta á hinum endanum. Á meðan Íslendingar skjálfa af ótta vegna ISIS, ógeðfelldum ofbeldissöfnuði sem tilbiður ofbeldi og pyntingar, þá er eins og hrædda fólkið, sem sakar aðra um einfeldni og barnaskap, sjái aldrei fyrir sér að drónaárásir, sprengingar og hernaður veki sama ótta í miðausturlöndum. Íslendingar eru í stríði við Sýrland en Íslendingar virðast ekki átta sig á því. Þannig eru Nató og loftárásir í raun hið fullkomna skálkaskjól. Stríðsferðum er í raun bara útvistað til alþjóðasamtaka sem ekki eru kjörin og falla ekki undir almennar reglur um upplýsingar, lýðræði eða ábyrgð.

Helstu stuðningsmenn þessa eru svo þeir sem ná ekki upp í nef sér yfir svikurunum sem vilja ganga í Evrópusambandið og tortríma sjálfstæði Íslands. Heimastjórnarmenn kalla þeir sig en styðja Nató… því þeir eru sko ekki einfaldir. Skilja raunveruleikann og mikilvægi þess að verjast.

Hversu margir Íslendingar ætli átti sig á því að samþykki Íslands við loftárásir Nató fyrir nokkrum árum var stríðsyfirlýsing af okkar hálfu? En nú er ég auðvitað barnalega einfaldur og raunar að afsaka hryðjuverkin… ekki satt? Auðvitað afsakar ekkert morð á saklausum borgurum sem ekkert hafa með átökin að gera. Eða hvað? Er það bara hefnd þegar það er gert við okkur og næstu nágranna okkar?

Er eitthvað firrtara en herlaus þjóð sem stöðugt er í stríðsbraski jafnvel án meðvitundar almennings. Þjóð friðar og herleysis sem alltaf skal með í loftárásir en tekur svo helst ekki við flóttamönnum. Frekar sameinast þjóðin um mikið Facebook-fár þar sem allir keppast við að opna geymslurnar og svefnsófa fyrir ímynduðum hælisleitendum sem aldrei koma og aldrei stóð til að kæmu. Kæra Eygló, takk fyrir þetta frábæra tækifæri til að útvarp manngæsku okkar. #InspiredByIceland par excellence svo eftir var tekið erlendis.

Svefnsófarnir eru þó tómir og verða áfram. Þeirra beið aldrei að hýsa neinn. Þetta eins og annað var gervi til heimabrúks.

Ef hryðjuverkin í París vekja svo mikinn ótta á Íslandi að yfirvöld ná að auka vopnaburð lögreglunar – sem stóð reyndar alltaf til, geta notað þau sem skálkaskjól til að taka við sem fæstum hælisleitendum – sem aftur stóð alltaf til að gera, nýtist til að útmála alla sem telja málið örlítið flóknara sem einfeldinga og ekki hvað síst vekur upp hóp fólks sem gerir þá kröfu á múslima hér á landi að þeir lýsi skilyrðislaust og án nokkurra útskýringa andúð sinni á voðaverkununum. Hvers vegna dettur fólki ekki í hug að endalausar loftárásir og aftökur vekji samskonar ótta annara? Hversu mikla þolinmæði ætli við myndum sýna loftárásum og ofsóknum í nafni frelsi annara áður en við marseruðum í takt við trylltustu ofbeldismenn okkar samfélags? Hryðjuverk sem gerðust í höfuðborg annars lands verða þannig til þess að við stillum upp hópi fólks sem sannarlega býr meðal okkar sem andstæðingum. Annaðhvort ertu með okkur eða með ISIS! Hver myndi sætta sig við svona? Ég hef aldrei verið krafinn afsökunar á Breivik eða skilyrðislausrar fordæmingar. Þótt hann hafi aðhyllst trú sem sækir uppruna sinn til minna forfeðra? Nei, ég er ekki að tala um kristni heldur æsi og goð.

Í Bretlandi lagðist pressan á múslima og spurði hvort þeir hefðu samúð með breskum börnum sem ganga í lið með ISIS. Um fimmtungur sagði já og fyrir vikið voru breskir múslimar málaðir sem stuðningshópur ISIS. Já, ég dáist að langlundargeði múslima…

Væri ég spurður þessarar spurningar myndi ég svara játandi. Það er ótrúlega sorglegt að sjá börn, stúlkur niður í 11 ára aldur, flýja og ganga til liðs við ISIS undir þeim formerkjum að þeirra bíði lúxus og tilgangur. Að allt sem þær lesi í vestrænum fjölmiðlum um samtökin sé í raun lygi. Þessara barna bíður iðulega fátt annað en ofbeldi og vonbrigði. Sum þeirra hafa svo verið tekin af lífi, þau hafa slasast eða þrá fátt annað en að koma til baka. Auðvitað hef ég samúð með þeim.

Fyrir múslima er málið auðvitað aðeins flóknara. Haukarnir sem alltaf eru tilbúnir að tromma upp stríð og ala á ótta við múslima halda eflaust að sú krafa sem þeir gera um skilyrtan tilvistarrétt múslima í vesturheimi sé ofsalega frumleg. Allt sé þetta nýtt og alls ekki eitthvað sem múslimar séu vanir. Múslimasleikjurnar – eins og ég – sem þeir hata jafnvel meira en múslimana sjálfa eru víst búnar að vefja múslima í slíkan bómullarhjúp að ekkert má segja lengur. Það má ekki einu sinni taka heilan hóp fólks út fyrir ramma og stimpla sem meðreiðarsveina hryðjuverkamanna án þess að vera kallaður fordómafullur! Hvert er heimurinn að fara eiginlega… pólitísk rétthugsun ætlar allt að drepa.

Ætli maður myndi ekki sjálfsritskoða sig væri maður sjálfur múslimi? Haukarnir sem kvarta sáran yfir því að ekkert geti þeir sagt sjálfir án þess að fá yfir sig skammir virðast ekki sjá hræsnina í því að gera múslima alltaf ábyrga fyrir gjörðum óðustu fylgjenda trúarinnar.

En já þetta er víst voðalega barnalega einfalt allt og nú verð ég held ég bara að hætta. Fullorðið fólk – eins og ég – vill bara sprengja! Sprengja til steinaldar! Nú þarf að drepa fyrir frelsið. Njósna fyrir frelsið. Frelsið kallar nú á fylgispekt! Nú þarf að gera eitthvað!

Stríð er nefnilega friður og ótti er frelsi…


Viewing all articles
Browse latest Browse all 27