Quantcast
Channel: islam – Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 27

„Samtökin Vakur og Robert Spencer eiga ekkert erindi við íslenskan almenning“

$
0
0

Stofnuð hafa verið samtök hér á landi sem bera nafnið Vakur. Á heimasíðu samtakanna er því haldið fram að þarna séu „samtök um evrópska menningu, verndun hennar og eflingu.“ Fyrsta verkefni þessara nýju samtaka er að boða til ráðstefnu um „allt sem þú vildir vita um íslam – en þorðir ekki að spyrja.“ Yfirskrift þessarar fundar bendir til að þarna verði hægt að fræðast um ein af fjölmennustu trúarbrögðum heims. Gott og vel, hljómar áhugavert. En…

Á þessa svokölluðu ráðstefnu hafa þessi samtök boðið manni að nafni Robert Spencer. Hann er titlaður sem trúarbragðafræðingur en líta ætti frekar á hann sem sjálfskipaðan „sérfræðing“ í íslamsfræðum. Hann hefur gefið út fjölda bóka og rita um málefni íslam en öll eiga þau sameiginlegt að vara við „íslamsvæðingu“ vesturheims og hættunni sem hann Spencer telur stafa af múslimum. Spencer þessi hefur oftar en einu sinni komist í kast við lögin og hafa bækur hans verið bannaðar í sumum ríkjum heims. Hann lætur þó ekki staðar numið þar.

Spencer heldur úti bloggsíðu sem kallast „Jihad Watch“ og er áróðurssíða full af fölskum fréttum og öðrum hatursáróðri, beint að sama hópi og í öðrum skrifum hans. Þessi síða er vinsæl á meðal þeirra sem nota öll tiltæk verkfæri til þess að breiða út öfga og hatur. Spencer er einn af stofnendum samtakanna „Stop Islamization of America,“ eða stöðvum íslamvæðingu Bandaríkjanna, sem eru dugleg við að dreifa út hatursáróðri gegn múslimum. Hann er líka einn af stofnendum samtakanna American Freedom Defense Initiative, sem hafa sömu markmið, og hafa verið flokkuð sem öfga- og haturssamtök, í anda samtaka á borð við Ku Klux Klan, Westboro Baptist Church og nýnasistahreyfingar í Bandaríkjunum. Spencer er einnig reglulegur gestur á Fox News fréttastöðinni þar sem hann fær að spúa hatri sínu og öfgum án þess að nokkur fái tækifæri til andsvara.

Ljóst er að samtökin Vakur eru samtök sem sett hafa verið á fót til þess að ala á andúð á íslam og múslimum og útlendingum almennt. Ljóst er að þarna eru komin fram samtök sem ætla sér að ala á ótta, fordómum, öfgum og hatri í garð minnihlutahóps hér á Íslandi. Til þess að gera svo ætla þau að flytja hingað inn mann sem hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik, sem myrti 77 í Osló og Útey árið 2011, dáðist mikið af, en Breivik vitnaði 64 sinnum í Spencer í stefnuyfirlýsingu sinni sem hann birti í aðdraganda hryðjuverkanna í Noregi.

Af augljósum ástæðum var Spencer, ásamt samstarfskonu sinni, bannað að koma til Bretlands árið 2013, þegar þau ætluðu að tala á fundi nýnasistahreyfingarinnar English Defence League. Þáverandi innanríkisráðherra, Theresa May, sem í dag er forsætisráðherra Bretlands, taldi boðskap þeirra getað raskað öryggi og almannafriði í landinu og því var þessum „„öfgafyllsta andstæðingi íslam í heiminum“ meinað að koma til landsins.

Samtökin Vakur og Robert Spencer eiga ekkert erindi við íslenskan almenning. Við höfum ekkert að gera við einstaklinga sem hafa sitt lifibrauð af því að selja ótta og hatur í garð fólks. Við erum lýðræðisríki þar sem trúfrelsi, mannréttindi og bann við mismunun eru varin í stjórnarskrá og landslögum. Við erum þjóð mannréttinda, frelsis og réttlætis. Það eru ekki múslimar sem ógna friði, öryggi og almannahagsmunum á Íslandi, það eru menn eins og Robert Spencer og þeir sem standa að baki samtakanna Vakur!

Lesið einnig grein Óskars Steins Ómarssonar um Robert Spencer hér.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 27