Maður sem lögregla stóð að íkveikjutilraun við Menningarsetur múslima 17. júní 2016, og sagði eftir handtöku að hann liti á athöfnina sem „yfirlýsingu“ enda væri hann þjóðernissinni og hefði óbeit á islam, var 2. janúar sl. sýknaður af ákæru um hatursglæp fyrir verknaðinn.
Fyrri íkveikjutilraunin
Um klukkan hálfsex að morgni föstudagsins 17. júní 2016 var lögreglunni tilkynnt um að eldur hefði verið borinn að Menningarsetri múslima við Skógarhlíð. Þrír lögreglumenn voru sendir á vettvang og fundu klósettpappír við inngang hússin, sem kveikt hafði verið í. Lögreglumennirnir slökktu „glóð sem var í pappírnum“ að því er segir í skjölum Héraðsdóms Reykjaness. Þar skammt frá lá karlmaður sem lögreglumönnunum virtist að sögn sofa ölvunarsvefni. Þeir ræddu við manninn sem neitaði í það sinn að hafa kveikt í pappírnum, og báðu hann um að yfirgefa svæðið. Annað var ekki að gert að sinni.
Síðari íkveikjutilraun
Tíu mínútum síðar berst lögreglu önnur tilkynning um að aftur sé reynt að kveikja í Menningarsetri múslima. Sömu lögreglumenn héldu þá aftur á vettvang og komu að manninum sem áður lá í meintum ölvunarsvefni, þar sem hann stóð með kveikjara í hönd og reyndi að kveikja í klósettpappír sem komið hafði verið fyrir á útidyrahurð. Í þetta sinn var maðurinn handtekinn og honum kynnt réttarstaða hans sem sakbornings. Í lögregluskýrslu kemur fram að á leið á lögreglustöðina hafi maðurinn sagst vera „mikill þjóðernissinni og að hann væri á móti islam.“ Þá hafi hann sagt íkveikjutilraunina vera „yfirlýsingu“ af sinni hálfu, en ekki útskýrt þau orð frekar.
Á manninum fannst og 23 sentímetra langur fjaðrahnífur og hnúajárn.
Kærður fyrir hatursglæp, segist ekkert hafa vitað
Maðurinn var í kjölfarið kærður fyrir hatursglæp. Hatursglæpir eru skilgreindir í a-lið 233. gr. hegningarlaga sem er svohljóðandi:
Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
Fyrir dómi, rúmu ári eftir verknaðinn, neitar ákærði sök en viðurkennir ólögmætan vopnaburð. Hann sagðist þá ekki hafa vitað hvaða starfsemi færi fram í Menningarsetri múslima og hefði talið að það væri kórstarf. Hann sagðist ráma í hvort sem væri að hafa kveikt í klósettpappír við húsið eða að þegar hefði verið kveikt í pappírnum þegar hann kom á staðinn, og bar við mikilli ölvun. Hann ætti það til að „tendra eld“ þegar hann væri ölvaður, „þá eingöngu sér til skemmtunar en ekki í þeim tilgangi að valda tjóni“. Ef hann hefði yfir höfuð lagt eld að pappírnum hefði ekki falist í því yfirlýsing af hans hálfu, enda hefði hann ekki verið í ástandi til að lýsa einu né neinu yfir. „Um fyllerísrugl hefði verið að ræða, ekkert annað“.
Ummæli eftir handtöku talin ómarktæk
Í dómsorði Héraðsdóms Reykjaness segir að „ummælum sem lögreglumenn hafa haft eftir ákærða úr viðræðum við hann í lögreglubíl eftir handtöku“ verði ekki „gefið slíkt vægi að þau geti ráðið úrslitum hvað þetta atriði varðar“ – það er úrskurð um hatursglæp, enda hafi lögreglumennirnir ákveðið að „spyrja hann út í málsatvik þrátt fyrir það sem áður var rakið um ástand hans“, það er ölvun mannsins, „og þá augljósu staðreynd að ákærði naut ekki aðstoðar verjanda.“ Þar sem framburður mannsins hafi verið allur á annan veg við skýrslutöku daginn eftir, þar sem naut ráðgjafar verjanda, og hann þá neitað að í athöfnum hans „hefði falist yfirlýsing af hans hálfu“ er það „mat dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna … að með háttsemi sinni hafi ákærði gerst sekur um brot gegn 233. gr. a. almennra hegningarlaga.“
Dómur í málinu féll 2. janúar sl. Maðurinn var sem fyrr segir sýknaður af ákæru um hatursglæp en dæmdur til 40.000 króna sektar fyrir brot á vopnalögum. Sakarkostnaður, um hálf milljón, féll á ríkissjóð.
Ljósmyndir: Sigtryggur Ari.