Quantcast
Channel: islam – Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 27

Ég er hræddur og ég hata

$
0
0

Gissur Gunnarsson skrifar:

Stundum finnst mér við íslendingar vera stórkostlegasta þjóð í heimi. Við erum falleg, sterk, klár og opin þjóð. En þótt við teljum okkur vera opna og umburðarlynda þjóð þá virðumst við ekkert vera öðruvísi en flestar aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við þegar kemur að innflytjendum. Við erum hrædd. Jæja, kannski ekki öll en mörg okkar. Af hverju? Jú við erum hrædd við breytingar. Hrædd við hið óþekkta.

Þessa dagana er mikið rætt um þá holskeflu flóttamanna sem er að flæða yfir Evrópu frá Sýrlandi. Talið er að 12 milljónir flóttamanna séu í búðum í Líbanon, Egyptalandi og Tyrklandi. Ákveðnum hluta okkar er í raun alveg slétt sama um það fólk miðað við það sem maður sér fólk skrifa á netinu þessa dagana. Það sem hræðir þann hluta þjóðarinnar er fólkið sem er að koma til Evrópu. Þá sérstaklega íslamstrúarfólkið sem er ekki eins og við á litinn.

Samkvæmt skoðanakönnunum er það fólk 34% Íslendinga. Einn þriðji. Fólk hér vill frekar fólk sem er líkt okkur. Núna þegar ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka allt að 100 „kvóta“flóttamenn í ár og á næsta ári þá mun reyna verulega á þessa Íslendinga.

Þetta fólk er hrætt um að allt fyllist hér af menningarhóp sem við þekkjum ekki og skiljum ekki. Af hverju? Af því að okkur er sagt að það sé eitthvað að honum. Okkur er sagt að það muni allt fara á annan endann. Okkur er sagt að um leið og að múslimar á Íslandi fái mosku þá muni hræðileg örlög bíða okkar. Sharíalög verði sett. Kvenréttindi muni verða að engu gerð og að hryðjuverkasellur munu spretta upp eins og gorkúlur og stúta landinu. Kjörnir fulltrúar vara okkur við þessu. Útvarp Saga varar okkur við þessu. Það er heill fjóshaugur sem kallast blog.is sem er fullur af hræddum gömlum köllum sem æla út úr sér svona viðbjóði á hverjum degi eins og þeim sé borgað fyrir það. Og kannski er þeim það… Hver veit. Hér eru tvö dæmi: 1 2treystir

En er það líklegt að þessi örlög bíði okkar? Nei. Í raun er það frekar langsótt. Samtök múslima hafa haft bænamiðstöð hér í 25 ár og Hallgrímskirkjan er enn standandi. Í raun hefur ekkert gerst seinustu 25 ár hér á landi sem gefur til kynna þá holskeflu ofbeldisverka og mannréttindabrota sem „múslimavæðing“ Íslands á að gefa af sér. Getur það verið að fólk sem fluttist til landsins fíli landið bara svona rosalega vel að það hefur yfir það litlu að kvarta að það hreinlega nenni ekki að sprengja sig í loft upp eða henda sýru á hvað annað?

Hvað höldum við eiginlega að þetta fólk sé? Þetta er fólk sem er alveg eins og við. Bara alið upp í öðrum kúltúr, og eins og við í kúltúr sem við þekkjum ekki þá misstígur fólk sig þangað til það lærir inn á venjur hvers staðar. Margir múslimar á Íslandi eru fæddir hér og eru alveg jafn miklir Íslendingar og ég og þú. Af hverju ættu aðfluttir múslimar að vera öðruvísi ef við tökum opnum örmum á móti þeim?

Svona í alvöru. Hvað ætli það myndi taka Íslendinga, einhverja ginkeyptustu og trúgjörnustu þjóð heims langan tíma að úthýsa þeim flóttamönnum sem kæmu hingað ef á einu ári það kæmi heiðursmorð, sýruárás og einhver annar viðbjóður sem talin er upp þegar reynt er að skrímslavæða fólk af íslamstrú?

Við hendum bláfátækum Nígeríubúum út úr landi í skjóli nætur, ljúgum og lekum upplýsingum um þá og blikkum ekki auga við það.  Af hverju hefur ekkert af þessari „íslamsvæðingu“  gerst í þau 25 ár sem það er búin að vera moska hér? Getur verið að múslimar á Íslandi verði . Íslendingar!

Á seinustu 15 árum hefur þröngsýni og íhaldssemi verið æ meira að ryðja sér til rúms í formi útlendingahræðslu og mótmælum gegn réttindum samkynhneigðra í Bandaríkjunum (BNA) og oftast hafa svipaðar skoðanir endurómað í þingi og fjölmiðlum hér á landi nokkru síðar í örlítið breyttu formi. Orð eins og kristin gildi, fjölskylda og hefðir hafa á einn eða annan hátt læðst inn í stefnumótunarferli og orðræðu kjörinna fulltrúa.  Hræðslupólitík og hundaflautu pólitík er farin að vera reglan frekar en undantekningin.

Reyndar áður en ég held áfram þá er skemmtileg tilviljun að íhaldssamir þingmenn í BNA sem tala um kristin gildi og fjölskyldu „it´s Adam and Eve not Adam and Steve“ og fleirri gullkorn eru nær undantekningalaust teknir með vændiskörlum. Og flestir þeirra eru ólöglegir innflytjendur. Munið það næst þegar einhver þingmaður eða flokksbundinn talar um að Ísland sé byggt á kristnum gildum, hefðir  o.s.frv…

MilitantKristnir ekki misskilja mig og halda að ég sé eitthvað að sleikja mig upp við einn trúarhóp framar öðrum. Fyrir mér eru ímyndaðir vinir þeirra alveg jafn hálfvitalegir og ykkar. Ykkar mannhatandi réttlætingar um að samkynhneigð sé synd vegna þess að það stendur í bók sem þið haldið að hafi verið skrifuð af mönnum sem voru ekki með næga vitneskju á hreinlæti til að skilja frá skítinn úr dýrunum sem þeir átu (en var líklega skrifuð af valdagráðugum páfum löngu síðar) eru alveg jafn heimskar og þeirra réttlætingar fyrir því af hverju má fara með konur eins og undaneldisvél og múlasna. Ég geri ekki greinarmun á vitleysunni í ykkur. Þetta er allt sama súpan með mismunandi kryddi fyrir mér.

En … Það gefur okkur ekki opið skotleyfi á að svipta þetta fólk þeim mannréttindum sem margur hommahatarinn hér á landi nýtur í skjóli laga. Ekki Jesús-laga heldur mannréttindalaga.

Inn í allt þetta kemur svo tjáningarfrelsið.

Vandamálið við að hafa tjáningarfrelsi er að hvaða fábjáni getur sest niður og skrifað eða sagt hvað sem hann vill hvort sem það sé nokkurt vit í því sem hann skrifar eða ekki svo lengi sem hann skautar nógu fimlega í kringum lögin.


FeminismHafði Ásmundur Friðriksson rétt á að spyrja í pontu Alþingis: „Hefur bakgrunnur þeirra 1500 múslima sem búa á Íslandi verið kannaður og hvort einhverjir „íslenskir múslimar“ hafi farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna eða barist í Afganistan, Sýrland eða öðrum löndum þar sem óöld ríkir meðal múslima.“
Já. Hann hafði og hefur fullan rétt á því. En hefur þetta eitthvað að gera í umræðu upplýsts þjóðfélags á 21. öldinni? Nei.

Ef við værum öll biblíuberjandi fávitar sem héldum að heimurinn væri 6000 ára gamall, Davíð Oddsson væri leiðtogi okkar smurður af guði og að allt fólk sem hefði ekki sömu skoðanir og við væru taldir óvinir okkar. Þá kannski hefði þessi spurning átt erindi á opinberum vettvangi.

En við erum flest vona ég nógu upplýst til að sjá þetta fyrir það sem þetta var. Í besta falli heilafretur hjá manni sem hefur horft allt of mikið á Fox News og í versta falli fyrstu merki elliglapa. Í raunveruleikanum var þetta líklega úthugsað útspil Sjálfstæðisflokksins til að opna gáttina aðeins meira í áttina að útlendingahræðslu og vopnavæðingu löggæsluliðs. Sem er alvarlegt mál.

fear is the pathSama mætti segja um Framsóknarstöllurnar í Reykjavík. Yfirlýsing sem væri lögbrot ef flokkurinn hefði sett hana sem stefnu er sett í staðinn sem vanhugsuð Facebook-færsla hjá oddvitanum.

Oddvitanum sem er lögfræðimenntuð kona. Sama lögfræðimenntaða kona ræður þekktan múslima- og hommahatara í mannréttindaráð vegna þess að það var „sniðugt“. Mátti hún koma með þessa yfirlýsingu? Auðvitað. Mátti rödd þessa manns heyrast í mannréttindaráði? Að sjálfsögðu. En hún hlaut að gera sér grein fyrir afleiðingunum.

Hafði þessi „mosku“-yfirlýsing eitthvert gildi? Nei. Lögfræðimenntuð konan vissi það jafn vel og aðrir lögfræðimenntaðir tilvonandi borgarfulltrúar að yfirlýsingin hennar um að hún myndi draga úthlutun lóðar tilbaka væri bull. Ef hún vissi það ekki þá ætti hún að setja lögfræðiprófið sitt aftur ofan í coca puffs-pakkann sem það kom í. Þetta var bara gert til að fá 5.112 froðufellandi útlendingahatandi vitleysinga til að kjósa sig þegar flokkurinn fattaði að öllum er skítsama um þennan flugvöll. Tilnefning Gústafs var ekkert vanhugsuð heldur því eins og Ásmundur var hún bara að “spyrja spurninga” og koma með skoðanir. Eitthvað sem er orðin mjög algeng og hættuleg taktík upp á síðkastið hjá flokkunum í ríkisstjórn.

Klassísk dæmi um svona nýtingu á tjáningarfrelsi í okkar þjóðfélagi er þar sem höfðað er til lægsta samnefnarans í þjóðfélaginu. Hatur og hræðslu á hinu óþekkta.

Þar er einmitt vandamálið. Þessi tvö dæmi sýna svo ekki verður um villst að það er eitthvað að í okkar fagra landi. Þegar það er í alvöru farið að vera í umræðunni að hópur sem hefur ekkert gert af sér hér á landi fái ekki sömu réttindi og aðrir hópar vegna þess að einhvers staðar annars staðar haga örfáir þeirra eins og fífl. Þá er eitthvað að. Þegar stungið er upp á því að bakgrunnstékka heilan hóp Íslendinga vegna þess að fólk sem trúir því sama og þeir einhvers staðar annars staðar eru í örfáum tilvikum gripnir við að brjóta lög þá er eitthvað að.

Af hverju segi ég örfáum sinnum? Er ekki allt krökkt af kolbrjáluðum handklæðishausum sem sprengja allt sem er fyrir þeim á meðan þeir berja og nauðga konunum sínum úti um alla Evrópu? Ekki miðað við útgefnar tölur. Samkvæmt Europol hafa undir 2% hryðjuverka seinustu 15 ára í Evrópu sprottið af trúarlegum ástæðum. Flestar hryðjuverkaárásir í Evrópu eru framdar af þjóðernissinnum og aðskilnaðarsinnum. Þið vitið … Fólki eins og Breivik.

Anne CoultierHvað með BNA? Sama. Það varð allt brjálað þegar átti að byggja mosku nálægt World Trade Center rústunum fyrir einhverjum árum síðan. Skoðanabræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þar froðufelltu og spöruðu ekki gífuryrðin um að þetta væri bara eins og að skíta yfir minningu fórnarlamba 9/11 og skeina sér með Ameríska fánanum. Þangað til að þeim var bent á að það væri moska einni eða tveimur götum nær rústunum en átti að byggja og að hún hefði nú verið þar í fjöldamörg ár.

Þú mátt samt ekki minnast á þá 450.000 plús Bandaríkjamenn sem hafa verið drepnir eða drepið sjálfa sig með skotvopnum innan BNA síðan 1998 án þess að vera kallaður svikari þar. Að minnast á þá hálfu milljón Íraka sem stjórnarher BNA hefur drepið er talið óamerískt, maður er talinn á móti hermönnunum og allir tárast á meðan þjóðsöngurinn þeirra er hummaður með bandaríska fánann blaktandi í slow motion á bakvið.

En af hverju er ég að tala um BNA? Við búum á Íslandi. Ó guðs vors lands o.s.frv… (Já. Ísland er land þitt er ekki þjóðsöngurinn okkar)

Ég tala um BNA vegna þess að öll sama taktíkin er notuð þar og er verið að nota á okkur hér. Hræðsla við múslima sem hafa ekkert gert. Hlutfallslega miðað við höfðatölu dóu jafn margir í 9/11 og löggan okkar skaut til bana á seinasta ári. Erum við að afvopna lögguna og fara í lobbí gegn henni? Nei, þvert á móti. Menn froðufella um forvirkar rannsóknaheimildir til að grípa inn í áður en skipulagðir glæpir verða skipulagðari. Löggan verður að fá vopn til að geta brugðist við því ef einhver missir vitið og drepur fullt af fólki. Sérstaklega ef hann er brúnn og heitir ekki íslensku nafni. En það er efni í alveg aðra grein.

Sem undirstrikar punkt minn um hræðsluna og hatrið á hinu óþekkta. Þetta er eitt af elstu trikkunum í bókinni til að fá fólk til að afsala sér réttindum. Sameiginlegur óvinur. Við gegn þeim. Og hópur af svokölluðum useful idiots hlaupa til og hjálpa til við að herða hengingarólina á sjálfan sig eins og kindurnar úr Animal Farm sem jörmuðu “four legs good, two legs bad” án þess að fatta að þær voru að færa sveitabæinn nær og nær alræði svínanna.

Af hverju eru múslimar einhver vondi kall? Af hverju er verið að eyða svona ofboðslega miklu púðri í að gera fólk sem líklegast er alveg eins og við inn við beinið að einhverjum óvin?

Ég meina hvort er líklegara að það sé undiralda af múslimum sem bíður eftir því að eitthvað 30 ára masterplan smelli saman svo þeir geti drepið okkur sem eru ekki múslimar og þrælað konunum okkar í nauðungarhjónbönd fyllt af sýruárásum, hópnauðgunum og barsmíðum?

Eða

Að þeir sem hafa stjórnað seinustu tugi ára séu enn bara að halda okkur uppteknum af sameigilegum óvin til að við séum ekki að hugsa um hvað þeir eru að gera dags daglega eins og að fella niður gjöld á ríkasta 1%. Selja frændum, vinum eða bræðrum bankana sem ríkið beilaði út og er loksins farnir að skila gróða eða selja/leigja auðlidirnar okkar á undirverði til fólks sem er að borga þeim undir borðið? Eða til þess að hafa afsökun fyrir því að vopnavæða lögregluna okkar svo að þegar næsti skellur kemur og við þurfum að borga aftur fyrir einkaleik þeirra þá verðum við ekki eins köld og seinast?

En ég er samt pínu hræddur. Ekki við útlendinga. Ég er hræddur við okkur. Eins og skýrslur Europol og FBI sem finnast líka í greininni sem ég hlekkjaði í fyrir ofan segja þá eru það aðskilnaðarsinnar og þjóðernissinnar sem fremja flest hryðjuverk í Evrópu og hafa gert það seinustu áratugina. Þið vitið… Fólk sem býr og hefur búið í löndunum frá upphafi. Fólkið sem getur rakið rætur sínar til landsins sem það fremur hryðjuverkið í. Anders Breivík, Timothy Mcveigh, Wade Michael Page, Eric Rudolph og fleirri.

Hér er hættan. Óupplýst fólk sem lætur segja sér alls konar vitleysu vegna þess að það passar í þægindarammann þeirra. Fyrir 50 árum voru það svertingjar sem myndu menga kynþáttinn okkar. Svo á áttunda og níunda áratuginum voru það hommar og lesbíur sem áttu að smita okkur öll af AIDS og tæla börnin okkar í barnaklám og dýraklám (reyndar enn nokkrir sem trúa því). Frá 2001 hafa það verið múslimar.

ice

Við erum að láta teyma okkur á óttanum gegn einhverju sem hefur ekki gerst hingað til hér á landi og lítur ekki út fyrir að muni gerast. Ég setti mynd af Ice Cube hér til hliðar. Þetta er alvöru áróðursmynd frá Britain First. Ég skoðaði síðuna þeirra og þetta eru kristnir öfgamenn með nýnasistablöndu. Það eru svipaðir hópar í Rússlandi sem grípa homma og brenna þá eða berja þá fyrir að haldast í hendur. Þetta er fólkið sem er að espa upp illindi í þjóðfélaginu vegna þess að það kann ekki búa með fólki sem er öðruvísi en það. Það eru 4-5 af vinum mínum á Facebook sem deila myndum frá þeim eða svipuðum hópum á hverjum degi. Ég sem hélt að ég ætti svo upplýstan vinahóp.

Pegida er með íslenska síðu þar sem 3.391 manneskjur hafa líkað við. Mótmælum mosku á Íslandi hópurinn kom tveimur framsóknarkonum inn í borgarstjórn. 1% af okkur líkar opinberlega við rasistasamtök.  Þetta eigum við að vera hrædd við. Samt ekki of hrædd.

Kannski meira vakandi í vitund um þetta. Vakandi gagnvart því að upplýsa þá óupplýstu. Réttar upplýsingar eru grundvöllur upplýstrar umræðu og upplýstrar ákvörðunartöku.

Andið inn og andið út og horfið í kringum ykkur. Er allt í fokki hérna vegna innflytjenda? Neibb, hélt ekki. Þeir flóttamenn sem ég veit um hafa annaðhvort stofnað fyrirtæki eða fengið sér vinnu hér og eru hluti af íslensku þjóðinni. Allir þeir útlendingar sem ég hef hitt hér á landi elska það hér og vilja vera hér áfram. Hvað er að því? Af hverju ættu þeir að skemma það fyrir sjálfum sér?

Myrkur getur ekki útrýmt myrkri: Aðeins ljósið getur það. Hatur getur ekki útrýmt hatri: Aðeins ást(væntumþykja) getur það.  –Dr. Martin Luther King Jr.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 27