Quantcast
Channel: islam – Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 27

Af öfgamönnum

$
0
0

Til eru menn sem vilja hefta samfélagið og mannsandann. Þeir vilja binda fólk eftir sínum hugmyndum og koma þeim af stað með öllum tiltækum ráðum, á kostnað hvaða svo sem hugsjóna eða gilda sem er. Þetta eru þessir svokölluðu öfgamenn.

Það erfiðasta við þessa öfgamenn er að þeim gengur gott eitt til, þeir bara sjá ekki hræsnina við hugsjónir sínar sem oft eru Orwellískar.

„Við verðum að vernda trúfrelsi með því að banna ein trúarbrögð, málfrelsið með því að banna öðrum að tjá sig og menninguna með því að loka á umheiminn.“

Þessir öfgamenn stilla sér gjarnan upp gegnt öðrum öfgamönnum.

„Þarna,“ segja þeir, „þetta eru öfgarnar sem þið fáið ef þið gangið
ekki til liðs við okkar öfgar!“

Þetta eru pólar sem sjá ekki meginlöndin.

Svo afhverju reyna öfgamenn frekar að stía fólki í sundur með flokkadráttum heldur en að reyna að breyta einhverju á jákvæðan hátt? Svarið er ótti. Öfgarnar eru aldar á ótta. Ótta við breytingar, ótta við hið óþekkta.

Öfgamennirnir eru hræddir við eitthvað sem er svo ósnertanlegt að hægt er að setja það yfir á hvað sem er, hvort sem það er sú hugmynd að Vesturveldin valti yfir allt, að gyðingar stjórni fjölmiðlum eða að íslam sé alheimssamsæri.

Þessi mannlegi ótti við að velkjast um í tilvist er tekinn og magnaður upp af fáfræði og fordómum. Það þarf þroskaða sál til að horfast í augu við eigin veikleika og gjörðir, og
því mikið auðveldara að kenna einhverju utanaðkomandi afli um það sem út af ber. Best er ef þú veist lítið um þetta afl og getur skáldað upp í holurnar.

Eins og ég hef alltaf sagt: Ég er ekkert atvinnulaus því ég hef ekki sótt um vinnu, ég er atvinnulaus því Borgnesingar eru alls staðar og þeir hata Skagamenn!
Fáfræðin getur af sér ótta.

Og eins og Yoda sagði í Episode I:

„Óttinn er leiðin til Myrku Hliðarinnar. Ótti leiðir til reiði. Reiði
leiðir til haturs. Hatur… leiðir til þjáninga.“

Einhverjir myndu kalla þessa prófraun hugsjóna frjáls samfélags „stríð“. Kannski, en það gerir okkur erfiðara fyrir að ræða við fólk og sættast. Í stríði taparðu eða gefst upp.

Það er ekki uppgjöf að opna sýn sína á heiminn, og enginn tapar við að skiptast á
upplýsingum.

Ég, Kali, Þór, Jesú, Múhameð

Ég, Kali, Þór, Jesú, Múhameð

Sumir öfgamenn vilja grípa til vopna. Byssur, hnífar, kylfur, hnefar, sprengjur, það eru þeirra vopn. Þeir eru sérfræðingar í þeim. Það er ekki hægt fyrir þenkjandi fólk að vinna þannig bardaga. Okkar vopn eru pennar, blýantar, penslar, lyklaborð, þessi þarna snertiskjáþingí sem ég kann ekki á.

Svo eru hættulegri öfgamenn; þeir sem þykjast geta beitt þessum vopnum þenkjandi fólks. Þeirra vopn eru falskur áróður og rangar upplýsingar. Orð uppkokkuð til að vekja hatur og sundrung. Og það er einungis ein leið til að verjast slíku, og hún er sú sama og gegn fyrri öfgamönnunum; að fræðast og fræða.

„Að vera reiður er að vera mennskur“ sagði Padmé í Episode II. Það er rétt hjá henni. Það er ekkert óeðlilegt við stöku reiði. Hún kemur ýmsu í verk. En það sem er óeðlilegt er að halda í reiðina eins og bjargreipi í gegnum lífið. Reiðumst voðaverkum öfgamanna, en fyrirgefum að sumir hafa bara ekki haft nein tækifæri í lífinu til að vita betur.

Öfgamaður brýst inn til þín, otar að þér byssu og bannar þér að teikna mynd af sér.
Hvað gerirðu? Þú allavega teiknar ekki mynd af honum því þú vilt halda lífinu.

Hugsjón er ekki sama og fífldirfska kjáni.

Það sem þú gerir er að bíða sallarólegur því þú veist að vinur þinn er í þessum töluðu orðum að tæta sundur blýantinn sinn af ákafa við að klára myndina sína. Og þegar byssumaðurinn otar hlaupinu að honum er röðin ekki bara komin að þér að teikna, heldur öllum öðrum.

Eitt vandkvæði er þó á þessari aðferð. Það gæti farið að hlakka í einhverjum öðrum öfgamannanna. Þeir fatta ekki skopið. Þeir líta bara á það sem sína skyldu að espa upp aðra. Stundum því það er eina leiðin til að kalla fram þessa annars ímynduðu ógn sem þeir byggja tilvist sína á, og stundum einfaldlega út af gömlu góðu hrekkjusvína ástæðunni. Þeir fela sig á bak við friðsöm mótmæli fólks sem vill sýna samstöðu, og henda út rotnum tómötum.

Og það er bara ein leið til að verjast þannig öfgamanni.
Þú teiknar mynd af honum líka.

Þú afhjúpar ranghugmyndir þeirra. Skopið er spegill og spegilmynd er eitthvað sem þeir óttast að horfast í augu við. Fyrir öfgamanni eru bara tvær hliðar og tvö lið, og það hræðir hann að sjá eitthvað fjölbreytilegra. Eitthvað sem skekur fábrotna og ýkta mynd hans af heiminum.

Þú munt heyra að sértu ekki með einum öfgamanni þá hljótirðu að vera með öðrum.

Og þá verðurðu að muna orð Kenobi í Episode III:
„Einungis Sith setja afarkosti.“

-Halldór Logi Sigurðarson (eini á myndinni ekki með skegg fyrir utan Kali)


Viewing all articles
Browse latest Browse all 27