„Et Danmark uden parallelsamfund – Ingen ghettoer i 2030“ heitir aðgerðaáætlun sem dönsk stjórnvöld hafa lagt fram, eða: „Ein Danmörk, án jaðarsamfélaga — engin gettó árið 2030“. Áætlunin beinist gegn íbúum hverfa í borgum landsins, þar sem meirihluti eða stór hluti íbúa er af erlendum uppruna, með lágar tekjur og/eða atvinnulaus. Alls nær áætlunin til 57 hverfa. Þar af eru 25 hverfi nefnd eiginleg gettó, og 16 af þeim skilgreind sem „hörðustu gettóin“. Alls búa í skilgreindum gettóum um 60.000 manns, þar af er um 40.000 aðfluttur frá stríðshrjáðum löndum utan Vesturlanda: Tyrklandi, Sýrlandi, Írak, Líbanon, Pakistan og Sómalíu.
![Stojberg með kökuna sína](http://kvennabladid.is/wp-content/uploads/2018/07/stojberg-178x300.png)
Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála á vegum hægriflokksins Venstre, fagnaði því árið 2017 að hafa hert á alls 50 lagagreinum um innflytjendur, og deildi á samfélagsmiðlum köku sem hún lét baka af því tilefni. Myndbirtingin og afstaðan að baki henni vakti skelfingu víða. Støjberg er enn ráðherra málasviðsins í Danmörku og stefna stjórnvalda af sama meiði.
„Gettóbörn“ skulu Danavædd frá 1 árs aldri
Á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar voru samþykkt lög, þann 28. maí, um börn sem fæðast og alast upp í þessum hverfum, eða „gettó-börn“ eins og þau eru víst nefnd í lagatextanum. Þau skulu, samkvæmt lögunum, frá eins árs aldri dvelja í 30 klukkustundir á viku á uppeldisstofnunum sem ætlað er að innræta þeim „dönsk gildi“, þar á meðal kenna þeim hefðbundna danska jólasiði. Engin sambærileg skylda er lögð á herðar börnum eða foreldrum utan hverfanna 57. Foreldri sem ekki sér til þess að barn sitt mæti í Danavæðingartímana skal, samkvæmt lögunum, missa rétt á barnabótum. Lögin taka gildi nú í sumar.
Þessi lög um innrætingu smábarna eru einn af alls 22 liðum aðgerðaáætlunarinnar. Þar er kveðið á um fleiri aðgerðir til að Danavæða börn í þessum tilteknu hverfum: áður en grunnskólaganga hefst skal lagt fyrir þau dönskupróf. Börn sem ekki standast prófið fá ekki að hefja skólagöngu í 1. bekk og frestast skólaganga þeirra því um eitt ár. Þessum aðgönguprófum er ætlað að vera komin í fulla framkvæmd fyrir skólaárið 2019-20. Engin sambærileg próf verða lögð fyrir börn íbúa í öðrum byggðum landsins.
Foreldrum úr þessum tilteknum hverfum verður bannað að senda börn sín til menntunar í öðrum löndum og slíkt athæfi gert saknæmt í refsilöggjöf, að viðurlagðri allt að 4 ára fangelsisvist.
![„Skærpet strafzone“ nefna dönsk stjórnvöld svæðin þar sem lögregluyfirvöld mega kveða á um þyngri refsingar við brotum en í öðrum hlutum Danmerkur.](http://kvennabladid.is/wp-content/uploads/2018/07/strafzone_a-center_m-crop_w-595_quality-70-300x276.png)
„Skærpet strafzone“ nefna dönsk stjórnvöld svæðin þar sem lögregluyfirvöld mega kveða á um þyngri refsingar við brotum en í öðrum hlutum Danmerkur.
Íbúar hverfanna muni sæta þyngri refsingum fyrir afbrot en aðrir
Meðal annarra áforma sem lögð eru fram í áætluninni er að skylda sveitarfélög til að stýra leyfisveitingum til leigusamninga í hverfunum á grundvelli atvinnustigs og menntunar leigjenda. Innflytjendum sem sæta aðlögunaraðgerðum verður bannað að öðlast búsetu í þeim hverfum sem skilgreind eru sem „hörðustu gettóin“. Sveitarfélög sem ekki framfylgja lögunum munu, samkvæmt tillögunum, sæta árssektum.
Þá er ráðgert að auka við nærveru lögreglu á götum hverfanna sem um ræðir og hækka um leið refsingar við brotum sem íbúar þeirra fremja. Lögreglu verður veitt heimild til að skilgreina nánar hvaða hlutar hverfanna teljast til „skærpet strafzone“ í þessum skilningi, og til hve langs tíma, á grundvelli gagna um tíðni afbrota. Óháð þeim ákvörðunum lögregluyfirvalda skulu refsingar við heimilisofbeldi tvöfaldar, í hverfunum sem um ræðir, á við refsingar fyrir sömu brot í öðrum byggðum Danmerkur.
„Það er sárt að þau sjái okkur ekki sem jafningja“
Í upplýsingabæklingi stjórnvalda um lögin segir að ríkisstjórnin óski sér „samfelldrar Danmerkur“, „Danmerkur sem byggir á lýðræðislegum gildum á við frelsi og réttaröryggi.“ Sú róttæka mismunun sem lögin fela í sér, auk orðræðunnar sem framsetning þeirra kyndir undir, þykir þó allt annað en lýðræðisleg.
Yildiz Akdogan, danskur stjórnmálamaður af tyrkneskum uppruna, sat á þingi fyrir hönd flokks sósíaldemókrata frá 2007 til 2011. Hún segir Dani hafa orðið svo vana harkalegu tali um innflytjendur að þeir geri sér ekki lengur grein fyrir tengslum orðsins gettó við aðgreiningu gyðinga í Þýskalandi nasismans. „Við köllum þau gettóbörn, gettóforeldra, það er svo galið“ er haft eftir henni í New York Times. „Þetta orð hefur komist í almenna notkun, sem er svo hættulegt.“
Í umfjöllun New York Times er einnig rætt við innflytjendur í Danmöku. Barwaqu Jama Hussein, 18 ára gamall flóttamaður frá Sómalíu, bendir á að stjórnvöld hafi sjálf úthluta fjölda innflytjenda, þar á meðal fjölskyldu hennar, húsnæði í hverfunum sem nú eru skilgreind sem gettó og sagt að þurfi að leysa upp. Hún segir tal stjórnmálamanna um „jaðarsamfélög“ alls ekki eiga við um sig eða Tingbjerg, hverfið þar sem hún býr, og eitt þeirra hverfa sem tilgreind eru í aðgerðaáætluninni. „Það er sárt að þau sjái okkur ekki sem jafningja,“ segir hún. „Við lifum raunverulega í dönsku samfélagi. Við fylgjum reglunum, við sækjum skóla. Það eina sem við gerum ekki er að borða svínakjöt.“