Quantcast
Channel: islam – Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 27

Danmörk bannar búrkur og níkab

$
0
0

Í dag, fimmtudag, samþykkti danska þingið lög sem banna klæði sem hylja andlitið. Frumvarpið og allur aðdragandi þess hefur vakið miklar deilur, en nokkuð ljóst þykir að það beinist einkum að þeim konum í samfélögum múslima sem klæðast níkab eða búrkum. Hefur iðulega verið vísað til frumvarpsins sem búrkubanns.

Lögin banna ekki notkun hlífðarklæða á við trefla, mótorhjólahjálma eða grímur sem notaðar eru við uppákomur á við hrekkjavöku. Þau eru þó skrifuð og kynnt sem óháð trúarbrögðum og taka einnig til lambhúshetta, ýmissa gríma sem hylja andlitið, utan hrekkjavöku, og gerviskeggs.

Amnesty segir bannið skaðlegast fyrir múslimakonur

Mannréttindasamtökin Amnesty International létu frá sér yfirlýsingu í tilefni af lagasetningunni. Yfirmaður Evrópudeildar samtakanna, Gauri van Gulik, sagði allar konur eiga að vera frjálsar að því hverju þær klæðast og hvernig þær tjá sjálfsmynd sína og trú. „Þetta bann mun hafa sérstaklega neikvæð áhrif á múslimakonur sem kjósa að klæðast níkab eða búrku,“ sagði hann. „Hafi ásetningurinn að baki lögunum verið að vernda réttindi kvenna hefur það misheppnast hrapallega. Þess í stað gera lögin konur að glæpamönnum fyrir klæðaval sitt og ganga þannig í berhögg við þau réttindi sem Danmörk segist ætla sér að verja.“

Belgía, Frakkland, Búlgaría, Sviss og nú Danmörk

Sams konar bann er þegar í gildi í Belgíu, Frakklandi, Búlgaríu og hluta Sviss. Í öllum tilfellum hafa stuðningsmenn slíks banns sagt að konur og stúlkur séu þvingaðar til að hylja andlit sitt, og bannið leysi þær undan þeirri ánauð. Andstæðingar bannsins segja aftur á móti að í því felist fyrst og fremst útrás fyrir vaxandi fordóma í garð múslima og aukin kúgun kvenna í samfélögum þeirra.

Fáar konur í Danmörku hafa klæðst búrkum eða níkab að jafnaði. Samkvæmt skýrslu frá árinu 2010 voru þær þá um 200 talsins.


Á ljósmyndinni má sjá konur klæðast níkab, við Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn, 31. maí 2018, þegar lögin voru samþykkt


Viewing all articles
Browse latest Browse all 27